Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um höfnun umsóknar um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 (útgerðarfjélag II).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [Y] f.h. [X ehf.], dags. 16. febrúar 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags 9. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um að bátnum [B] (hér eftir í úrskurði þessum einnig nefndur báturinn) verði úthlutað af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

[X ehf.] hefur skipt um nafn og heimilisfang og heitir nú [B ehf.], […]. samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Í úrskurði þessum er vísað til heitis félagsins eins og það var þegar stjórnsýslukæra í máli þessu var lögð fram.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda, [X ehf.], um að bátnum [B] verði úthlutað af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 17. janúar 2018, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 18. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Flateyri í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu 18. janúar 2018 og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 2. febrúar 2018. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 1.135 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar sem skiptust á byggðarlögin Hnífsdal, 222 þorskígildistonn, Þingeyri, 281 þorskígildistonn, Flateyri, 300 þorskígildistonn, Suðureyri, 192 þorskígildistonn og Ísafjörð, 140 þorskígildistonn.

Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 21. nóvember 2017.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn með umsókn til Fiskistofu, dags. 22. janúar 2018.

Hinn 9. febrúar 2018 tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum eigendum og útgerðaraðilum skipa á Flateyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. febrúar 2018, var hafnað umsókn kæranda um að bátnum yrði úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Í ákvörðuninni kom fram að samkvæmt staflið a 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 væri það skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta að fiskiskip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests til að koma til greina við úthlutun. Við lok umsóknarfrests hafi báturinn verið sviptur veiðileyfi og því komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til bátsins.

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um höfnun umsóknar um úthlutun.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 16. febrúar 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [Y ehf.] framangreinda ákvörðun Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að Fiskistofa hafi tilkynnt [Y ehf.] með bréfi, dags. 9. febrúar 2017, að ekki verði af úthlutun byggðakvóta til bátsins fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 þar sem báturinn hafi tímabundið verið sviptur veiðileyfi vegna vanrækslu á að skila inn afladagbók. Afladagbók hafi verið skilað inn við fyrsta tækifæri eftir að ljóst var um veiðileyfissviptinguna. Kærandi fari fram á að niðurstöðu Fiskistofu verði breytt á þann veg að úthlutun til bátsins verði samkvæmt áunninni veiðireynslu bátsins. Þá bendir kærandi á tiltekin atriði sem ekki séu rétt í texta hinnar kærðu ákvörðunar. M.a. sé dagsetning bréfsins 9. febrúar 2017 og í textanum komi fram eftirfarandi setning: "Við lok umsóknarfrests var skipið svipt veiðileyfi og því kemur til úthlutunar byggðakvóta til skipsins" en rökrétt sé að álykta að orðið "ekki" hafi fallið úr setningunni fyrir vangá og skort hafi yfirlestur.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2018, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með bréfi, dags. 5. apríl 2018, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna. Þar segir m.a. að Fiskistofa telji að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun. Fiskistofa hafi synjað umsókn kæranda með bréfi, dags. 9. febrúar 2018, með vísan til a-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017. Í 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017 sé Fiskistofu falið það hlutverk að annast úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Úthlutun byggðakvóta sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 10. gr. þeirra laga hvíli sú skylda á Fiskistofu að gæta þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í því felist að stofnuninni beri skylda til að tryggja að skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta séu uppfyllt, en öðrum kosti hafi stofnunin ekki lagaheimild til að úthluta byggðakvóta til skips. Í staflið a 1. mgr. 1. gr. og 2. gr. reglugerðar nr. 604/2017 sé það skilyrði sett fyrir úthlutun byggðakvóta til skips að við lok umsóknarfrests hafi skipið leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Rannsókn Fiskistofu hafi leitt í ljós að þegar umsóknarfrestur um byggðakvóta Flateyrar rann út 2. febrúar 2018 hafi báturinn ekki haft slíkt veiðileyfi. Fiskistofa hafi þegar af þeirri ástæðu ekki haft heimild til að úthluta byggðakvóta til bátsins. Til upplýsinga vísi Fiskistofa til 17. gr. laga nr. 116/2006, þar sem mælt sé fyrir um skyldu skipstjórnarmanna veiðiskipa sem hlotið hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni til að halda sérstakar afladagbækur. Í ákvæðinu sé sú skylda lögð á Fiskistofu að svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni vegna vanskila á afladagbókum og mælt fyrir um að leyfissvipting skuli standa þar til skil hafi verið gerð eða skýringar verið gefnar á ástæðum vanskila. Nánar sé mælt fyrir um skil á afladagbókum í reglugerð nr. 746/2016, um afladagbækur. Hinn 12. september 2017 hafði afladagbók bátsins vegna júlí 2017 ekki borist Fiskistofu og hafi báturinn því verið sviptur leyfi til veiða í atvinnuskyni með vísan til 17. gr. laga nr. 116/2006. Afladagbækur vegna ágúst og september 2017 hafi heldur ekki borist til Fiskistofu og hafi svipting veiðileyfis einnig grundvallast á því, annars vegar frá og með 9. október 2017 og hins vegar frá 4. nóvember 2017. Við lok umsóknarfrests vegna úthlutunar byggðakvóta hafði sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni því ekki verið aflétt. Fiskistofa sendi tilkynningar um veiðileyfissviptingar í ábyrgðarpósti til útgerða skipa og veiti þeim frest til að uppfylla skyldu sína áður en ákvarðanir um veiðileyfissviptingar hafi réttaráhrif. Útgerð bátsins hafi því verið kunnugt um veiðileyfissviptingarnar áður en þær hafi komið til framkvæmda. Bátur kæranda hafi enn ekki leyfi til veiða í atvinnuskyni og hafi verið án veiðileyfis frá og með 12. september 2017, enda hafi útgerðin ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 17. gr. laga nr. 116/2006, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 746/2016.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Stjórnsýslukæra [Y ehf.] 2) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. febrúar 2017. 3) Auglýsing Fiskistofu eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta Flateyrar, dags. 18. janúar 2018. 4) Umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Flateyrar til bátsins. 5) Samningur um vinnslu afla bátsins vegna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2017/2018. 6) Útprentun úr skrá Fiskistofu um sviptingar leyfis bátsins til veiða í atvinnuskyni. 7) Útprentun úr skrá Fiskistofu yfir útgerðar-, eigenda- og veiðileyfisstöðu bátsins, dags. 5. apríl 2018.

Með bréfi, dags. 9. apríl 2018, sendi ráðuneytið kæranda, [Y ehf.], ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 5. apríl 2018 og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina. Frestur til þess var veittur til og með miðvikudagsins 25. apríl 2018.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda við framangreinda umsögn Fiskistofu, dags. 5. apríl 2018.

 

 

Rökstuðningur

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru að: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, við lok umsóknarfrests, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla almenn skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður hlutur til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum. Ennfremur koma fram í ákvæðinu nokkrar reglur um úthlutun byggðakvóta miðað við tiltekin skilyrði o.fl.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 604/2017.

Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ, m.a. á Flateyri fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (II) nr. 17/2018, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 604/2017 og auglýsingu (II) nr. 17/2018.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru í 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017, sbr. auglýsingu (II) nr. 17/2018 talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2017/2018 en samkvæmt staflið a 1. gr. reglugerðarinnar eru þau m.a. að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, við lok umsóknarfrests. Báturinn [B] var sviptur veiðileyfi við lok umsóknarfrests um úthlutun byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ sem lauk þann 2. febrúar 2018 og hafði því ekki leyfi til veiða í atvinnuskyni á þeim tíma sem miðað er við í framangreindu ákvæði reglugerðar nr. 604/2017. Það er mat ráðuneytisins að þær ástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni fyrir því að báturinn hafði ekki leyfi til veiða í atvinnuskyni á umræddu tímamarki geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.

Þrátt fyrir að í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu komi fram dagsetningin 9. febrúar 2017 verður af gögnum málsins ráðið að kæruefni varði ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ vegna fiskveiðiársins 2017/2018 en sú ákvörðun var tekin þann 9. febrúar 2018. Að teknu tilliti til þessa verður að telja að um misritun hafi verið að ræða. Við úrlausn þessa máls er tekið mið af framangreindu en úthlutun hefur ekki farið fram til bátsins.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á úrlausn þessa máls.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að úthluta bátnum [B] af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu frá 9. febrúar 2018.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu frá 9. febrúar 2018 um að hafna umsókn kæranda [X ehf.], um að bátnum [B] verði úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum